Hvernig ég læknaðist af kvíða, krónísku verkjavandamáli og sólarofnæmi

Sólarofnæmið hafði ég glímt við síðan ég var unglingur. Ekki svo alvarlegt vandamál þegar maður býr á Íslandi, en hvimleitt í sólarlandaferðum. Útbrot sem byrjuðu í olnbogabót, kláði. Dreifðust ef haldið var áfram að vera í sólskini. Ráðleggingar húðlæknisins? „Ekki vera í sól“ og „vertu í síðerma bol“. Farið hefur fé betra! Skárri voru ráðleggingarnar frá hinni fróðu Fésbók um sérstakar ofnæmissólarvarnir sem gátu a.m.k. frestað útbrotunum og gefið mér fáeinar auka sólarstundir. 

Kvíðinn hafði fylgt mér í mörg ár. Mismikill, stundum vægur, stundum alvarlegur. Þegar hann varð alvarlegur fór ég til sálfræðings í HAM (hugræna atferlismeðferð) sem sló á einkennin, hjálpaði mér að „lifa með kvíðanum“. En hann var samt þarna.

Króníska verkjavandamálið var langverst. Hófst á meðgöngu 2015-2016 í baki og kjálka. Færðist yfir í axlir og háls. Byrjaði í sjúkraþjálfun sem sló vægt á einkennin. Mjög stífir vöðvar, bólgnir, og miklir verkir. Verkirnir voru mismiklir, ferðuðust á milli, stundum bara í kjálkanum, stundum bara í baki, stundum í öxlum og hálsi, oft alls staðar. Var í sjúkraþjálfun í heilt ár, verkirnir héldu áfram að versna þar til sjúkraþjálfarinn minn „dömpaði mér“. Sagðist ekki geta hjálpað mér. Ég fór til tveggja heimilislækna, gáfu mér vöðvaslakandi og verkjastillandi pillur. Voru annars ráðalausir. Ég fór til bitkjálkasérfræðings hann útbjó skinnu handa mér og rukkaði mig um háar fjárhæðir fyrir. Ég fór til kírópraktors og versnaði, fór í nokkur skipti til osteópata sem sagðist ekki geta hjálpað mér og kallaði mig „mystery case“.

 

Í vor átti ég orðið erfitt með að stunda vinnuna mína. Um hádegið var ég orðin svo þreytt og verkjuð að ég varð að leggjast niður og hvíla mig. Ég óttaðist alvarleg veikindi, óttaðist að ég yrði öryrki. Ég var orðin svo örvæntingarfull og var viss um að ég væri komin með vefjagigt, krabbamein eða eitthvað annað þaðan af verra.  

Engin líkamleg orsök fannst fyrir þessum verkjum. Ég var alltaf þreytt. Ég skildi ekki hvers vegna enginn gat hjálpað mér. Í örvæntingu minni fór ég að stunda hugleiðslu og leita að svari inn á við. Byrjaði að hugleiða snemma í vor og í lok sumars var ég 90% laus við alla þreytu, alla verki, ég var læknuð af kvíðanum og sólarofnæminu (sem var algjör bónus).

Ég hafði verið að hugleiða í örfáar vikur þegar ég vaknaði einn morguninn með þá hugmynd í kollinum að ég ætti að fara í dáleiðslu. Ég vissi ekkert um dáleiðslu, hafði aldrei heyrt um dáleiðslu nema sviðsdáleiðslu og það sem maður sér í bíómyndum en ég var örvæntingarfull og tilbúin að prófa hvað sem er. Ég fann dáleiðara á netinu og fór í dáleiðslu í alls sex skipti.

Samhliða dáleiðslumeðferðinni stundaði ég sjálfs-heilunar hugleiðslu og frá því ég fór í fyrsta dáleiðslutímann þann 6. júní 2019 liðu ekki nema u.þ.b. tveir mánuðir þar til ég var búin að fá ótrúlegan bata frá öllum þessum meinum. Það sem ég lærði á þessu tímabili og sjálfsþekkingin sem ég öðlaðist var hreint mögnuð. Orsökin fyrir kvíðanum, verkjunum, þreytunni og sólarofnæminu var neikvæðar tilfinningar (orka) sem hafði fests inn í líkamanum mínum í barnæsku og gegn um árin og var að valda ójafnvægi og sjúklegu ástandi. Í dag er ég 100% heilbrigð, bæði á líkama, huga og sál og mér hefur aldrei liðið betur. Ég er alveg verkjalaus. Ég er glöð, ánægð og kraftmikil. Síðan hef ég fylgt hjarta mínu og innsæi og fór sjálf og lærði dáleiðslu og kynnt mér leyndardóma undirmeðvitundarinnar og hvernig hún gegnir lykilhlutverki í heilbrigðu og hamingjursömu lífi.  

Ef þú ert að glíma við króníska verki, þreytu, kvíða o.s.frv., ekki gefast upp. Það er alltaf til lausn.

Ef þú vilt vita meira ttu senda mér fyrirspurn eða skilaboð, einnig má finna alls konar fróðleik hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband